Þeir veiðimenn sem lagt hafa leið sína í Húnavatnssýsluna þekkja margir til Höskuldar Birkis Erlingssonar. Höski, sem fæddur er og uppalinn í Reykjavík, hefur búið á Blönduósi undanfarin 23 ár þar sem hann hefur starfað sem aðalvarðstjóri í lögreglunni. Við náðum tali af ástríðuveiðimanninum, leiðsögumanninum og ljósmyndaranum á dögunum en hann hefur um árabil fest magnaða náttúru Blöndudals og nágrennis á myndir sem sumar hverja fylgja greininni hér.
Höski hefur veitt síðan að hann var krakki, fyrst þegar hann var í sveit hjá ömmu og afa á Ströndunum og byrjaði að veiða á bryggjunni. Með aldrinum leiddist hann út í silungsveiði og laxinum kynnist hann eftir að hann flutti á Hólmavík árið 1992. Maríulaxinn veiddi hann í Langadalsá á mögnuðum veiðidegi en fjórir aðrir laxar heiðruðu hann með nærveru sinni þann sama dag. Áhuginn óx með tímanum, Höski var mikið í bleikju og eftir flutningana á Blönduós 2001 fór hann að stunda laxveiði af krafti. Síðan þá hefur hann verið gæd í Laxá á Ásum, Blöndu, Svartá og Víðidalsá um áralangt skeið.
Spurður um sitt skemmtilegasta augnablik í veiði í Blöndu minnist hann sumarsins 2016 þegar sumarið hófst með gríðarstórum göngum af tveggja ári laxi. Höski opnaði svæði 2 í Blöndu þann 20. júní ásamt góðum félaga en þeir fengu 25 tveggja ára laxa á 1 stöng á tveimur dögum. Mögnuð veiði sem Höski vonar sannarlega að muni endurtaka sig, en svæði 2 kallar Höski heimavöll sinn og nefnir veiðistaðinn Kvíslármót sem sinn eftirlætis. Á myndinni efst hér í greininni má sjá glæsilegan 98 cm fisk úr þessari frægu ferð, en þess má geta að þessi fiskur tók Frances númer 12 og var landað á einhendu.
Höski hefur tekið myndir síðustu 30 ár og segist alltaf hafa haft gaman af því þó áhugamálið hafi verið heldur dýrt á fyrstu árunum. Með stafrænu tækninnni óx honum ásmegin og áhuginn hefur verið stigmagnandi síðan, í seinni tíð sérstaklega af fuglaljósmyndun. Höski líkir tilfinningunni við veiði. Verandi búinn að ákveða að taka mynd af ákveðnum fugli á ákveðnum stað og þá þarf að leggja mikið á sig að ná réttu mómenti. Höski hefur útbúið sig vel, hann á felutjald og hefur gaman af því að bíða í eftirvæntingu. Að festa réttan fugl á mynd á réttum stað á réttum tíma gefur því ekkert eftir að krækja í þann stóra.
Fuglarnir sem sjá má myndir af í þessari grein eru Haförn, Mandarín Önd, Rjúpa, Kjói, Silkitoppa og Jaðrakan.