Höfundur Markús Darri Maack
Ljósmyndir Pétur Andreas Maack
Það voru tveir spenntir strákar sem settust upp í Cruiserinn þann sjötta júlí. Þrátt fyrir að hafa barist við rok og rigningu undanfarna daga á silungasvæðinu í Víðidal var það bjartsýnin sem réði för á leið okkar Bjarka í Blöndu 4. Við vorum að fara að hitta góða vini og veiða í geggjuðu umhverfi. Getur ekki klikkað.
Spáin í Blöndudal var reyndar bara nákvæmlega eins og það sem við vorum búnir að vera díla við. Samt vorum við spenntir. Meira að segja svo spenntir að ég gleymdi að borga fyrir olíu á Blönduósi. Sem betur fer áttaði ég mig á því og gat hringt og gert upp skuldina áður en við duttum út úr símasambandi.
Við veiðihúsið á Eldjárnsstöðum var samt ekkert rok og engin rigning. Bara logn og glampandi sól. Við tókum þessu sem góðu merki um næstu daga og skoðuðum okkur um í nýja húsinu. Við vorum fyrstir þannig við tókum besta herbergið og settumst í kaldan á pallinum.
Loksins komu strákarnir. Þeir voru á eftir áætlun og gjörheillaðir af því að sjá umhverfið þarna í fyrsta skipti þannig við þurftum að kippa þeim aðeins niður á jörðina til að koma þeim af stað.
Það var kominn tími til að fara að veiða. Við vorum frekar snemma á ferðinni, sérstaklega miðað við ferðalagið sem laxinn þarf að fara til að komast alla leið þarna upp eftir, svo við vissum að við værum ekki að elta marga laxa. En við vissum líka að þeir sem við værum að elta, væru stórir. Svo er líka slatti af bleikju og urriða á svæðinu þannig ég smellti saman tveimur einhendum. Einni púpustöng með Galdralöpp dry dropper og einni með Collie Dog túpu fyrir chrome rockets.
Við byrjuðum í Stekkjarhamarshyl. Mjög fallegur, stór og djúpur hylur. Þar sem rennur ofan í hann er froða í yfirborðinu og þar sáum við strax 10-15 bleikjur. Við settum í og lönduðum nokkrum, geggjað að horfa á tökurnar af klettinum. Við sendum tvær stangir svo upp með ánni en okkar varð eftir á neðsta svæðinu. Fengum nokkra urriða en fórum svo snemma upp í hús að græja grillið og stilla upp í veislu, mjög sáttir með fyrstu vakt. Strákarnir skiluðu sér loks í hús, væntanlega allir búnir að renna á steinum og detta í ánna.
Eftir skrautlegt kvöld voru menn misryðgaðir í morgunmatnum. 19 gráður, 5 m/s og sól var ekki draumaveiðiveðrið en allt í góðu samt. Planið var einfalt, við ákváðum að byrja aftur í Stekkjarhamarshyl, taka nokkrar bleikjur og ætluðum svo að keyra upp í Rugludal, labba allt svæðið niður og finna laxa.
Þegar við vorum að böggast í þessum bleikjum fer Bjarki af stað og veður yfir í hyl sem heitir 8.5. Hann var óvenju þögull af einhverjum ástæðum sem enginn skildi.
Að sjálfsögðu var hann þögull því hann hafði séð lax og stuttu seinna var hann á. Geggjaður tveggja ára fiskur sem fékk að sjálfsögðu að halda áfram ferð sinni eftir að við fengum nokkrar myndir með honum. Við vorum ekkert eðlilega sáttir að vera búnir að finna lax.
Við héldum plani og eyddum deginum í að labba niður svæðið úr Rugludal. Fengum fullt af bleikju á þurrflugur og héldum að allir urriðar sem fóru í túpurnar væru laxar í smá. Dagurinn leið frekar fljótt hjá okkur, einir í þessu sturlaða umhverfi. Geggjaður urriði var góð leið til að enda þennan dag. Kokkalandsliðið fór aftur af stað uppi í húsi og Bjarki komst loksins í WiFi.
Sólin og hitinn fór ansi illa með veiðina restin af ferðinni. Fengum nokkur tilboð en settum á endanum ekki í fleiri laxa. Það skipti ekki öllu máli þar sem við vorum búnir að fá allt út úr þessari ferð. Fengum nokkra fiska í epísku umhverfi, keyrðum laxatímabilið af stað og skemmtum okkur frábærlega á svæði 4.
Þangað til næst.